Í Lútherskri hjónahelgi felst að hjón dvelja eina helgi fjarri heimili og fjölskyldu og taka þátt í skipulagðri dagskrá til að efla tjáskiptin í hjónabandinu. Markmið helgarinnar er að skapa hjónunum nýja möguleika á að auðga líf sitt með tjáningu tilfinninga sinna hvoru við annað og við samferðamenn sína. Lúthersk hjónahelgi byggir á kristilegum grunni og stendur opin öllum hjónum.
Á hverri Lútherskri hjónahelgi eru fern flytjendahjón, þar af eru ein prestshjón.

UPPLÝSINGABLAÐ

Þú getur einnig notað skráningarformið hér til hliðar.

Hvernig fer Lúthersk hjónahelgi fram?

Lúthersk hjónahelgi hefst á föstudagskvöldi og lýkur á sunnudagskvöldi. Helgin er tveggja sólarhringa löng dagskrá þar sem hjónunum er opnuð ný leið til að tjá hvort öðru tilfinningar sínar og hugsanir. Helgin byggir ekki á hópstarfi á þann hátt að hjónin þurfi að deila tilfinningum sínum með öðrum.

Hverjum nýtist Lúthersk hjónahelgi?

Lúthersk hjónahelgi er fyrir öll hjón sem elska hvort annað og vilja lifa saman samkvæmt því heiti sem þau gáfu hvort öðru á brúðkaupsdaginn.
Hún er fyrir hjón sem vilja gera gott hjónaband betra og kærleiksríkara. Öll hjón eiga við einhverja örðugleika að etja. Ekkert hjónaband er fullkomið.
En Lúthersk hjónahelgi er samt ekki námskeið eða meðferð sem ætlað er að reyna að leysa stórvægileg vandamál.
Reynslan sýnir að betri tjáskipti hjóna innbyrðis hafa jákvæð áhrif á samskipti þeirra við aðra.
Kærleikur á milli tveggja einstaklinga er ekki kyrrstæður. Kærleikurinn tekur breytingum. Hann eflir líf okkar þegar við lútum lömáli hans. Hjónabandið er grundvallað á kærleika og einmitt þá getur kærleikurinn orðið hvað innilegastur. En til þess að svo megi verða þurfa hjón að rækta garðinn sinn.

Reynslan hefur kennt fjölmörgum hjónum að opin umræða getur bætt og styrkt hjónabandið.

Saga Lútherskrar hjónahelgar

Marriage Encounter hófst á Spáni á sjötta áratug 20. aldar að frumkvæði spánska prestsins séra Gabriel Calvo. Starfið barst þaðan til rómönsku Ameríku og síðan til Bandaríkjanna árið 1967.
Fyrsta Lútherska hjónahelgin var haldin hér á landi árið 1985 en áður höfðu verið haldnar hjónahelgar hér á vegum kaþólikka. Lúthersk hjónahelgi starfar nú í Bandaríkjunum, Kanada, Brasilíu, Noregi, Íslandi, Finnlandi, Danmörku, Svíþjóð og Ástralíu.
Lúthersk hjónahelgi er hreyfing sem rekur sig sjálf og þiggur enga styrki frá kirkju eða opinberum aðilum. Henni er stjórnað af hjónum sem farið hafa á Lútherska hjónahelgi. Í stjórn sitja bæði leikmanna-og prestshjón.

Hvað kostar að vera með?

Við innritun er greitt skráningargjald sem er óafturkræft.
Á helginni er kostnaður gefinn upp og hjónin hvött til þess að taka þátt í honum með því að leggja fram fjárhæð í ómerkt umslag. Sumir gefa mikið og aðrir minna, allt eftir efnum og ástæðum.
Allir sem taka þátt í starfi hreyfingarinnar gera það í sjálfboðavinnu og eingöngu er greitt fyrir útlagðan kostnað. Enginn hagnast fjárhagslega á starfseminni en sjóður kærleikans dafnar og ber ríkulegan ávöxt.

Innskráning